Krabbameinsfélagið býður upp á fræðslu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Starfsfólk okkar er til staðar þegar á þarf að halda. Markmiðið er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi við breyttar aðstæður í lífinu, veita stuðning og nauðsynlegar upplýsingar. Hjá okkur fá þeir sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur ráðgjöf og fræðslu um einkenni, félagsleg réttindi og þá þjónustu sem í boði er.
Hjá Krabbameinsfélaginu starfa hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar. Félagsráðgjafarnir veita ráðgjöf á íslensku og pólsku. Auk þess eru starfandi ellefu stuðningshópar fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Þjónustan er öllum að kostnaðarlausu.
Í boði eru meðal annars:
Fjölbreytt námskeið
Símaráðgjöf
Viðtöl
Sálfræðiþjónusta
Fræðslufundir
Djúpslökun
Hugleiðsla og jóga
Fjarviðtöl
Réttindaráðgjöf
Námskeiðin sem Krabbameinsfélagið bíður upp á miða að því að aðstoða fólk við að takast á við þær áskoranir sem algengt er að standa frammi fyrir við greiningu, á meðan meðferð stendur og eftir að meðferð líkur. Meðal námskeiða sem eru reglulega á dagskrá eru: Mannamál – sem er sérstaklega ætlað karlmönnum sem greinst hafa með krabbamein, Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi, Núvitund og samkennd, Einbeiting og minni, þreytustjórnun, bjargráð við kvíða og námskeið um síðbúna fylgikvilla.
Krabbameinsfélagið er að Skógarhlíð 8 í Reykjavík og er opið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9-16 og frá kl. 9-14 á föstudögum. Þjónustan er öllum opin og hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér eða hafa samband við starfsmenn Krabbameinsfélagsins í síma 800 4040 alla virka daga frá kl. 9-16 eða senda fyrirspurn í tölvupósti á netfangið radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.
Karlaklefinn.is er fræðsluverkefni á vegum Krabbameinsfélags Íslands sem ætlaður er karlmönnum. Þar er fjallað er um karla og krabbamein á karllægan hátt. Þar er að finna fræðsluefni af ýmsum toga sem sérstaklega er ætlað karlmönnum. Markmið Krabbameinsfélagsins með Karlaklefanum er að auka áhuga karla á fróðleik og upplýsingum um heilbrigðan lífsstíl. Einnig að miðla upplýsingum um krabbamein og sjúkdómsferli, réttindamál, stuðning og viðbrögð aðstandenda og vinnufélaga svo dæmi séu tekin.
Þar er einnig að finna ákvörðunartækið sem hjálpar körlum að ákveða hvort rétt sé að fara í rannsókn til að leita að vísbendingum um blöðruhálskirtilskrabbamein. Ákvörðunartæki Krabbameinsfélagsins er ætlað 50-70 ára karlmönnum sem velta fyrir sér hvort þeir ættu að láta leita að vísbendingum um krabbamein í blöðruhálskirtli.
Comments